föstudagur, 27. september 2024

Mættur á svæðið

 

Jæja, þetta er bara að bresta á eftir alls kyns bras við að redda hinu og þessu. Það fyrsta sem þurfti að gera þegar samþykki fyrir skólavist var komið var að uppfylla fyrirvara, sumt var einfalt eins og að skila inn gögnum en svo þurfti ég að taka enskupróf sem var smá bras en mér tókst þó að græja það í gegnum netið og náði því auðveldlega. Þegar síðan endanlegt samþykki lá fyrir kom að því að sækja um dvalarleyfi og borga sig inn í sjúkratryggingakerfið.

Það var komið fram í júlí þegar allt þetta var klárt og þá tók við leit að húsnæði. Það kom fljótt í ljós að það yrði of dýrt að leigja íbúð, bæði er leigan há hér í Bretlandi og svo hefði maður þurft að kaupa húsgögn o.þ.h. þannig að ég endaði á að leigja herbergi nálægt skólanum og flutti ég inn í það í gær eftir viðburðaríka ferð til Englands sem tafðist úr hófi vegna bilana. Hinir leigjendurnir eru í sama skóla og ég og eins og við var að búast er ég lang elstur í húsinu.

Fyrstu tveir dagarnir hafa svo bara farið í að koma sér fyrir, klára skráningu í skólanum, stofna bankareikning og á morgun er svo stefnan tekin í leikhús, nema hvað. 

Myndina tók ég fyrir framan aðalbyggingu skólans með nýja aðgangskortið mitt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli